13
Þetta er nú í þriðja sinn sem ég kem til ykkar. Biblían segir að hafi tveir eða þrír orðið vitni að rangindum, þá beri að refsa. Nú þegar ég kem vara ég ykkur við í þriðja sinn. Ég hef þegar varað þá við sem syndguðu, það gerði ég síðast þegar ég var hjá ykkur. Nú vara ég þá aftur við og alla hina eins og ég gerði þá. Ég segi ykkur hér með að þegar ég kem þá verð ég undir það búinn að refsa þeim harðlega og án undanbragða.
Ef þið viljið, þá mun ég sanna á fullnægjandi hátt að ég tala fyrir munn Krists. Kristur er ekki máttlaus þegar hann fer höndum um ykkur, nei, hann er sterkt afl hið innra með ykkur. Vanmegna, kvalinn og hrjáður dó hann á krossinum, en nú lifir hann fyrir kraft Guðs. Eins og hann var, erum við líkamlega veikburða, en lifum þó eins og hann í styrkleika. Við höfum aðgang að krafti Guðs og þann kraft munum við nota ykkar á meðal.
Prófið sjálf ykkur
Prófið ykkur sjálf. Eruð þið trúuð þegar allt kemur til alls? Munuð þið standast prófið? Finnið þið fyrir nálægð Krists? Vex máttur hans í ykkur? Eða eruð þið kannski aðeins kristin að nafninu til? Ég vona að þið séuð mér sammála um að ég hafi staðist prófið og tilheyri Drottni, svo ekki verði um villst.
Ég bið til Guðs að þið lifið sómasamlegu lífi, en ekki til þess að þið verðið skrautfjöður í hatt okkar, sem sanni kenningu okkar. Við viljum að þið gerið það sem rétt er og jafnvel þótt við sjálfir verðum fyrirlitnir. Okkar hlutverk er að hvetja ávallt til þess sem rétt er, því hvernig færi fyrir okkur ef við ættum að standa gegn sannleikanum? Við gleðjumst þótt við séum veikburða, bara ef þið verðið styrk. Okkar hjartans bæn og þrá er að þið verðið fullþroska í trúnni.
10 Þetta skrifa ég í þeirri von að ég þurfi ekki að ávíta ykkur eða refsa, þegar ég kem, því að ekki langar mig til að nota það vald sem Drottinn hefur gefið mér til að refsa, heldur það vald sem ætlað er til uppbyggingar hinum trúuðu.
11 Ég lýk bréfi mínu með þessum orðum: Verið glöð og vaxið í Kristi. Farið eftir orðum mínum og lifið í sátt og samlyndi. Friður Guðs og kærleikur sé með ykkur.
12 Heilsið hvert öðru með hlýju og kærleika Drottins. 13 Trúsystkini ykkar hér senda sínar bestu kveðjur. 14 Friður Drottins Jesú Krists, kærleikur Guðs og samfélag heilags anda eflist ykkar á meðal.
Páll