17
Ummyndun Jesú
Sex dögum síðar tók Jesús þá Pétur, Jakob og Jóhannes með sér upp á hátt fjall. Þegar þangað kom sáu þeir að útlit Jesú breyttist, andlit hans tók að ljóma sem sólin og klæðin urðu skínandi björt. Allt í einu birtust Móse og Elía og fóru að tala við hann. Þá sagði Pétur: „Drottinn, hér er gott að vera! Ef þú vilt, þá skal ég gera hér þrjú skýli, eitt handa þér, annað handa Móse og það þriðja handa Elía.“ En um leið og hann sagði þetta kom bjart ský yfir þá og úr því heyrðu þeir rödd sem sagði: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlustið á hann!“ Lærisveinarnir lutu til jarðar í óttablandinni lotningu. Jesús kom til þeirra, snerti þá og sagði: „Rísið upp og verið óhræddir.“ Þegar þeir litu upp sáu þér Jesú einan. Á leiðinni niður fjallið bað Jesús þá að segja engum frá því, sem þeir höfðu séð, fyrr en hann væri risinn upp frá dauðum.
10 Þá spurðu þeir hann: „Hvers vegna segja leiðtogar þjóðar okkar að Elía verði að koma á undan Kristi?“ 11 „Þetta er rétt hjá þeim,“ svaraði Jesús. „Elía verður að koma og færa allt í lag. 12 Hann er reyndar búinn að koma, en menn þekktu hann ekki og margir fóru illa með hann. Ég, Kristur, mun einnig verða að þjást af þeirra völdum.“ 13 Þá skildu lærisveinarnir að hann átti við Jóhannes skírara.
Drengur læknaður
14 Þegar þeir komu niður af fjallinu beið þeirra mikill mannfjöldi. Maður nokkur kom þá hlaupandi, kraup að fótum Jesú og sagði: 15 „Herra miskunnaðu syni mínum. Hann er geðveikur og þungt haldinn. Hann dettur oft í eld og vatn. 16 Ég fór með hann til lærisveina þinna, en þeir gátu ekki læknað hann.“ 17 „Æ, þið efagjörnu og rangsnúnu menn!“ sagði Jesús. „Hversu lengi á ég að umbera ykkur? Komið með drenginn til mín.“ 18 Jesús ávítaði illa andann, sem var í drengnum, svo að hann fór úr honum og drengurinn varð heilbrigður á samri stundu.
19 Eftir á spurðu lærisveinarnir Jesú hvers vegna þeir hefðu ekki getað rekið illa andann út. 20 „Þið hafið svo litla trú,“ svaraði Jesús. „Ef þið ættuð trú, þó að ekki væri hún stærri en agnarlítið sinnepsfræ, þá gætuð þið sagt við þetta fjall: „Færðu þig!“ og það mundi hlýða ykkur. Ykkur yrði enginn hlutur um megn. 21 En illur andi eins og þessi fer ekki út fyrr en þið hafið beðið og fastað.“
Jesús segir aftur fyrir um dauða sinn og upprisu
22-23  Dag einn meðan þeir voru enn í Galíleu sagði Jesús við lærisveinana: „Ég mun verða svikinn í hendur þeirra sem vald hafa til að lífláta mig, en að þrem dögum liðnum mun ég rísa upp.“ Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta urðu þeir hryggir og skelfdir.
Pétur og meistarinn borga skatt
24 Þegar þeir komu til Kapernaum komu menn, sem innheimtu musterisskattinn, til Péturs og spurðu: „Greiðir meistari þinn ekki skatta?“ 25 „Auðvitað gerir hann það,“ svaraði Pétur. Síðan fór hann inn í húsið til að ræða málið við Jesú, en Jesús varð fyrri til og spurði: „Pétur, hvort heldur þú að konungar skattleggi syni sína eða útlendingana, sem þeir undiroka?“ 26-27  „Útlendingana,“ svaraði Pétur. „Fyrst svo er,“ sagði Jesús, „þá eru synirnir skattlausir! En við skulum ekki hneyksla þá. Farðu niður að vatninu og kastaðu út færi. Opnaðu síðan munninn á fyrsta fiskinum sem þú færð og þar muntu finna pening. Taktu hann og greiddu fyrir okkur báða.“