21
Jesús kemur til Jerúsalem
Jesús og lærisveinar hans nálguðust nú Jerúsalem. Þegar þeir áttu skammt ófarið til þorpsins Betfage á Olíufjallinu, sendi hann tvo þeirra þangað á undan sér.
„Þegar þið komið inn í þorpið, munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver spyr hvað þið séuð að gera, skuluð þið svara: „Drottinn þarfnast þeirra,“ og þá mun spyrjandinn láta ykkur afskiptalausa.“
Með þessu rættist gamall spádómur sem er svona: „Segið Jerúsalem að konungur hennar sé að koma, auðmjúkur og ríðandi á ösnufola!“
Lærisveinarnir tveir gerðu eins og þeim var sagt og komu með ösnuna og folann til Jesú. Þeir lögðu síðan yfirhafnir sínar á folann og Jesús settist á bak. Þá breiddu flestir viðstaddra yfirhafnir sínar á veginn en aðrir skáru greinarnar af trjánum og dreifðu þeim á veginn. Allt fólkið gekk á undan og hrópaði:
„Guð blessi konunginn, son Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Drottinn, sendu honum hjálp þína frá himnum.“
10 Allt komst í uppnám í Jerúsalem við komu Jesú og fólkið þar spurði: „Hver er þetta?“ 11 Mannfjöldinn, sem fylgdi honum, svaraði þá: „Þetta er Jesús, spámaðurinn frá Nasaret í Galíleu.“
Jesús hreinsar musterið
12 Jesús gekk inn í musterið og rak kaupmennina, sem þar voru, á dyr. Hratt um stöllum dúfnasalanna og borðum þeirra sem skiptu peningum. Hann sagði:
13 „Biblían segir: „Musteri mitt á að vera bænastaður, en þið hafið gert það að ræningjabæli!“ “
14 Blindir menn og bæklaðir streymdu til hans og hann læknaði þá í musterinu. 15 Þegar æðstu prestarnir og leiðtogarnir sáu þessi dásamlegu kraftaverk og heyrðu börnin hrópa í musterinu: „Guð blessi son Davíðs!“ urðu þeir gramir og sögðu við hann: „Heyrirðu hvað börnin segja?“
16 „Já,“ svaraði Jesús, „hafið þið aldrei lesið þetta: „Jafnvel börnin munu lofa hann.“ “
Fíkjutré visnar
17 Síðan fór Jesús til Betaníu og gisti þar um nóttina. 18 Á leiðinni til Jerúsalem, morguninn eftir, fann hann til svengdar. 19 Þá tók hann eftir fíkjutré, sem stóð rétt við veginn. Hann gekk að trénu til að athuga hvort á því væru nokkrar fíkjur, en svo var ekki, einungis lauf. Þá sagði hann við tréð:
„Upp frá þessu munt þú aldrei bera ávöxt!“ Rétt á eftir visnaði tréð. 20 Lærisveinarnir urðu forviða og spurðu:
„Hvernig gat tréð visnað svona fljótt?“
21 „Sannleikurinn er sá,“ svaraði Jesús, „að ef þið trúið án þess að efast, þá getið þið gert slíka hluti og jafnvel enn meiri. Þið gætuð til dæmis sagt við þetta fjall: „Flyttu þig út í sjó,“ og það mundi hlýða. 22 Þið getið fengið allt, já allt, sem þið biðjið um – ef þið trúið.“
Leiðtogarnir leggja á ráðin
23 Þegar Jesús var kominn í musterið og farinn að kenna, komu æðstu prestarnir og aðrir leiðtogar þjóðarinnar. Þeir kröfðust þess að hann segði þeim hver hefði gefið honum vald til að reka kaupmennina út daginn áður.
24 „Það skal ég segja ykkur, ef þið svarið einni spurningu fyrst,“ sagði Jesús. 25 „Sendi Guð Jóhannes skírara? Já, eða nei!“ Þeir báru saman ráð sín:
„Ef við segjum að Guð hafi sent hann, þá mun hann spyrja af hverju við höfum þá ekki trúað honum. 26 En ef við segjum að Guð hafi ekki sent hann, þá mun fólkið ráðast á okkur, því að það telur að Jóhannes hafi verið spámaður.“ 27 Að lokum svöruðu þeir: „Við vitum það ekki.“
„Þá svara ég ekki heldur spurningu ykkar,“ sagði Jesús.
Dæmisagan um bræðurna
28 „En hvað segið þið annars um þetta: Maður nokkur átti tvo syni. Hann sagði við annan: „Sonur minn, þú skalt vinna í víngarðinum í dag.“ 29 „Æ, nei, ég nenni því ekki,“ svaraði hann, en seinna sá hann sig um hönd og fór. 30 Faðirinn sagði síðan við þann yngri: „Heyrðu, þú skalt fara í jarðræktina.“ Sonurinn svaraði: „Já, pabbi, sjálfsagt!“ en fór ekki fet. 31 Hvor þessara tveggja hlýddi föður sínum?“ „Sá fyrri, auðvitað,“ svöruðu þeir. Jesús skýrði nú fyrir þeim merkingu sögunnar og sagði: „Illmennum og vændiskonum verður leiðin til himins greiðfærari en ykkur. 32 Jóhannes skírari sagði ykkur að gjöra iðrun og snúa ykkur til Guðs. Það vilduð þið ekki, en það gerðu hins vegar svindlarar og skækjur. Og þótt þið sæjuð það gerast, vilduð þið samt ekki sjá ykkur um hönd og hlýða honum. Þess vegna gátuð þið ekki trúað.“
Dæmisagan um spilltu vínyrkjana
33 „Hlustið á þessa sögu: Landeigandi nokkur plantaði vínviði og gerði skjólgarð umhverfis hann. Því næst reisti hann pall fyrir eftirlitsmanninn og leigði síðan víngarðinn nokkrum bændum með því skilyrði að þeir skiptu uppskerunni með honum. Síðan fluttist hann úr landi.
34 Þegar uppskerutíminn kom sendi hann menn sína til bændanna að sækja sinn hluta. 35 En bændurnir gerðu aðsúg að þeim, börðu einn til óbóta, drápu annan og grýttu þann þriðja.
36 Þá sendi hann aðra til þeirra, fleiri en þá fyrri, en allt fór á sömu leið. 37 Að lokum sendi víngarðseigandinn son sinn, því hann hugsaði: „Þeir munu áreiðanlega bera virðingu fyrir honum.“ 38 En þegar bændurnir sáu son hans koma, sögðu þeir hver við annan: „Þarna kemur erfinginn. Komið! Við skulum drepa hann og þá eigum við víngarðinn!“ 39 Síðan drógu þeir hann út úr víngarðinum og drápu hann.
40 Hvað haldið þið að landeigandinn muni gera við bændurna þegar hann kemur til baka?“ 41 Leiðtogar Gyðinga svöruðu:
„Svona illmenni ætti að lífláta og leigja víngarðinn öðrum, sem greiða leiguna skilvíslega.“ 42 Þá spurði Jesús:
„Hafið þið aldrei lesið þessi ritningarorð:
„Steinninn sem smiðirnir höfnuðu, var gerður að hornsteini. Drottinn hefur unnið dásamleg verk!“
43 Það sem ég á við er þetta: Guðsríki verður tekið frá ykkur og gefið öðrum, sem afhenda Guði hans hlut í uppskerunni. 44 Þeir sem reka sig á þetta sannleiksbjarg munu sundurmerjast, en þeir sem undir verða myljast mélinu smærra.“
45 Þegar æðstu prestarnir og hinir leiðtogarnir skildu að Jesús átti við þá – að þeir væru bændurnir í sögunni, 46 vildu þeir handtaka hann. Þeir þorðu það þó ekki vegna fólksins sem áleit að Jesús væri spámaður.