27
Drottinn er ljós mitt og frelsari, hvern ætti ég að óttast? Hann er skjól mitt og vígi, og því hræðist ég ekki.
Þegar illmenni reyna að uppræta mig, þá hrasa þeir sjálfir og falla. Þótt voldugur her umkringi mig á alla vegu, þá óttast ég ekki hót! Ég er öruggur og veit að Guð mun frelsa mig.
Drottinn, þetta þrái ég mest af öllu: Að hugleiða í helgidómi þínum, og vera frammi fyrir þér alla mína ævidaga. Þar vil ég gleðjast yfir dýrð hans og fullkomnun, hún er engu lík! Þar verð ég öruggur á óheilladeginum – öruggur í skjóli Drottins. Hann lyftir mér upp á háan klett þar sem óvinirnir ná ekki til mín. Þá mun ég færa honum fórnir og lofa hann fagnandi. Drottinn, heyrðu hróp mitt! Ég kalla hátt! Sendu mér miskunn þína og hjálp!
Drottinn, ég minnist þess sem þú sagðir: „Þú þjóð mín, kom þú og leitaðu mín.“ „Já, Drottinn! Ég kem!“ svara ég.
Drottinn, hyl þig ekki fyrir mér. Hafnaðu ekki þjóni þínum í reiði. Þú varst mér skjól þegar á móti blés, yfirgefðu mig ekki. Hafnaðu mér ekki, þú Guð hjálpræðis míns. 10 Þótt faðir minn og móðir vísuðu mér á bug, þá tækir þú mér tveim höndum og huggaðir mig.
11 Drottinn, hvað á ég til bragðs að taka? Svaraðu mér fljótt! Óvinir umkringja mig! 12 Láttu þá ekki ná mér, Drottinn! Láttu mig ekki falla þeim í hendur! Þeir ásaka mig að ástæðulausu og sitja á svikráðum við mig. 13 En ég treysti því að Drottinn frelsi mig og að ég sjái hjálp hans, því að enn er von, – enn er ég á lífi!
14 Þú, hver sem þú ert, misstu ekki vonina! Treystu Drottni og hann mun frelsa þig! Vertu hugrakkur og djarfur og óttastu ekki. Bíddu um stund og hann mun senda þér hjálp!