92
1-2  Gott er að þakka Drottni og lofsyngja Guði hinum hæsta. Á hverjum morgni segi ég við Drottin: „Þökk sé þér fyrir miskunn þína!“ Og á kvöldin fagna ég yfir trúfesti hans. Syngið honum lof og leikið undir á hörpu og gígju. Drottinn, mikið ertu mér góður. Ég syng af gleði! – Er nokkur hissa á því?
Ó, Drottinn, mikil eru máttarverk þín! Þeir einir sem ekki nenna að hugsa, fara þeirra á mis. Heimskingjarnir skilja ekki að hinir óguðlegu – sem í bili virðast hafa það gott – munu afmáðir að eilífu. En Drottinn, þú lifir að eilífu, hátt upphafinn á himnum, 10 meðan óvinir þínir – illgjörðamennirnir – tvístrast.
11 Ég finn styrk og kraft, en Drottinn, allt er það þér að þakka! Blessun þín hefur endurnært mig. 12 Ég heyrði dóminn yfir óvinum mínum og sá þegar þeim var eytt. 13 En hinir réttlátu munu blómgast líkt og ávaxtatré, já vaxa eins og sedrustrén í Líbanon.
14 Því að þeir eru gróðursettir í garði Drottins og njóta umhyggju hans. 15 Jafnvel á elliárunum bera þeir ávöxt og eru sem laufguð tré. 16 Þeir bera vitni um réttlæti Drottins, að hann er skjól og vernd og allt sem hann gerir er gott!