3
Gætið tungunnar
Kæru vinir, verið ekki of fljótir á ykkur að setja ofan í við aðra, því að öll gerum við mistök, og ef við, sem uppfræðum aðra í trúnni, gerum rangt, þá munum við fá þyngri refsingu en hinir.
Sá sem hefur stjórn á tungu sinni, sýnir að hann hefur fullkomið vald á sjálfum sér. Með beislinu einu getum við látið sterkan hest hlýða okkur og fara hvert sem við viljum. Með litlu stýri getur stýrimaðurinn snúið stóru skipi hvert sem hann vill, jafnvel í stormi.
Tungan er einnig lítil, en getur valdið miklu tjóni! Skógareld má kveikja með einum litlum neista. Tungan er logandi eldur. Hún er full illsku og eitrar allan líkamann. Tungan er tendruð af sjálfu helvíti og hún getur leitt ógn og eyðingu yfir líf okkar.
Menn geta tamið alls konar skepnur og fugla, skriðkvikindi og fiska, en tunguna ræður enginn mannlegur máttur við. Hún er sífellt reiðubúin að spýta banvænu eitri. Aðra stundina lofar hún Guð á himnum, en hina formælir hún mönnunum sem skapaðir eru í hans mynd. 10 Þannig kemur bæði blessun og bölvun af sömu vörum. Kæru vinir, slíkt er rangt og á ekki að eiga sér stað! 11 Úr hvaða lind streymir ferskt vatn, en síðan beiskt? 12 Hver tínir ólífur af fíkjutré eða fíkjur af vínviði? Enginn, og úr saltri lind fær enginn ferskan sopa.
13 Sértu hygginn, þá vendu þig á að gera hið góða, svo að allt sé gott, sem frá þér kemur, en ef þú stærir þig af því, er auðséð að þú ert óskynsamur. 14 Ef þú ert bitur, afbrýðisamur og eigingjarn, stærðu þig þá ekki af því að vera góður og gáfaður – verri mótsögn er ekki til. 15 Afbrýðisemi og sjálfselska eru ekki hyggindi frá Guði. Slíkt er jarðneskt, í andstöðu við Guð og innblásið af djöflinum. 16 Þar sem afbrýðisemi og eigingirni ræður ríkjum, logar allt í ófriði. 17 Þekking sú, sem Guð gefur okkur, er hins vegar hrein og ljúf, friðsöm, kærleiksrík og kurteis. Hún hlustar fúslega á skoðanir annarra og tekur tillit til þeirra. 18 Hún er sönn og miskunnsöm og þeir sem hana ástunda; sá friði og uppskera hið góða.