65
1-2 Ó, þú Guð á Síon, við lofum þig og vegsömum og efnum heit okkar við þig. 3 Þú heyrir bænir og því leita allir menn til þín. 4 Margar freistingar urðu mér að falli, ég gerði margt rangt, en þú fyrirgafst mér allar þessar syndir. 5 Sá er heppinn sem þú hefur útvalið, sá sem fær að búa hjá þér í forgörðum helgidóms þíns og njóta allsnægta í musteri þínu. 6 Með krafti þínum sýnir þú réttlæti þitt, þú Guð, frelsari okkar. Þú ert skjól öllum mönnum, allt að endimörkum jarðar.
7 Þú reistir fjöllin í mætti þínum, 8 þú stöðvar brimgný hafsins og háreysti þjóðanna. 9 Þeir sem búa við ysta haf óttast tákn þín og austrið og vestrið kætast yfir þér! 10 Þú vökvar jörðina og eykur frjósemi hennar. Ár þínar og uppsprettur munu ekki þorna. Þú gerir jörðina hæfa til sáningar og gefur þjóð þinni ríkulega uppskeru. 11 Með steypiregni vökvar þú plógförin og mýkir jarðveginn – útsæðið spírar og vex! 12-13 Landið klæðist grænni kápu. Heiðarnar blómstra og hlíðarnar brosa, allt er loðið af gróðri! 14 Hjarðirnar liðast um hagana og dalirnir fyllast af korni. Allt fagnar og syngur!